Þessa dagana stendur yfir vinna við smíði viðmiðaramma fyrir upplýsinga- og tæknimennt í framhaldsskóla. Vinnunni miðar vel og er nú svo komið að hægt er að birta drög á vefnum fyrir kennara og aðra sem áhuga hafa að kynna sér og gera athugasemdir við.
Mikilvægt er að hafa í huga að drögin sem hér má sækja eru vinnuskjal og töluvert verk er óunnið enn. Vinnan fór þannig fram að fyrst var safnað saman öllum áföngum í upplýsingatækni og áfangalýsingarnar greindar og flokkaðar eftir hæfniþrepum. Næst voru hæfniviðmiðin greind og þau flokkuð.
Í skjalinu sem hér fylgir hefur hæfniviðmiðunum verið safnað saman og þau flokkuð eftir viðfangsefni. Flokkarnir eru fjórir:
- Upplýsingatækni og læsi
- miðlun, grafík og vefsmíðar
- forritun og gagnasafnsfræði
- vélbúnaður, uppsetning og rekstur
Eins og sjá má þegar skjalið er skoðað þá er eitthvað um endurtekningar auk þess sem enn á eftir að fækka atriðum og sameina. Heildarmyndin ætti samt að vera nokkuð ljós.
Stefnt er að því að skila verkinu í upphafi desember. Allar athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar.