3F - Félag um upplýsingatækni og menntun er félag þeirra sem starfa við  eða hafa áhuga á  upplýsingatækni í menntastofnunum landsins. Félagið hefur nokkrum sinnum skipt um nafn en ævinlega hefur það haldið skammstöfuninni 3F sem er frá fyrsta nafni félagsins er það hét 3F - Félag forritara fræðslukerfisins. Í þá daga var orðið upplýsingatækni ekki til.

Mars 2012. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Ólafi Gísla Péturssyni kennara í Menntaskólanum í Kópavogi þá var 3f - Félag forritara í framhaldsskólakerfinu stofnað haustið 1982 í Menntaskólanum í Kópavogi. Ólafur Gísli kom að stofnun félagsins, en aðdraganda þess má rekja til ráðstefnu sem haldin var um sumarið 1982 á Akranesi. Á ráðstefnunni voru saman komnir nokkrir tölvukennarar. Ólafur Gísli segir að ráðstefnan hafi verið haldin með aðkomu Menntamálaráðuneytisins, en í þá daga hafði Hörður Lárusson umsjón með tölvumálum ráðuneytisins.

Í janúar 2010 fannst fundargerðagbók sem var í eigu félagsins. Fundargerðarbókin nær aftur til aðalfundar sem haldinn var í Odda í Háskóla Íslands 26. júní 1987 til aðalfundar sem haldinn var 30. maí árið 1992 í Fjölbrautaskólanum í Ármúla.
Því miður þá höfum við ekki upplýsingar um það sem gerðist í félaginu frá 1992 til ársins 2000.  Á aðalfundi félagsins árið 2000 var nafni þess breytt í 3f- Félag um upplýsingatækni í menntun. Ef einhver á í fórum sínum heimildir frá þeim tíma væri gott að fá þær.

Á aðalfundi 3f 26. júní 1987 var nafni félagsins breytt frá því að vera Félag forritara fræðslukerfisins í 3f- Félag tölvukennara. Á fundinum voru samþykkt ný lög félagsins og fram kemur að ný stjórn hafi verði kosin og í henni starfi Bjarni Kolbeinsson formaður, Lúðvík Echart gjaldkeri og Davíð Þorsteinsson ritari.
Á þessum aðalfundi var rætt undir önnur mál um höfundarréttarmál og lýstu fundarmenn áhyggjum sínum af ólöglegri fjölföldun hugbúnaðar í skólum og hvernig stemma ætti stigu við því.
Starfsárið 1987-1988 voru haldnir tveir fundir og sjá má í fundagerðum að aðalviðfangsefnin voru tölvukostu skólanna, starfsskilyrði tölvukennara og höfundarréttarmál.

Haldinn var aðalfundur í félaginu 22. júní 1988 í Námsgagnastofnun. á þeim fundi gekk Lúðvík úr stjórn og í hans stað kom Eysteinn Jónasson sem nýr gjaldkeri. Undir liðnum önnur mál var rætt um gerð sjónvarpsefnis þar sem fjallað yrði um mikilvægi tölvukennslu í skólum og ályktaði fundurinn um stuðning sinn við Guðmund R Guðmundsson við gerð slíks sjórnvarpsefnis. Félagið bauð fram aðstoð sína við gerð þáttarins og félagar vilja sinn til þess að taka þátt í þáttagerðinni, viðtöl og slíkt.

Starfsárið 1988-1989 var haldinn einn félagsfundur. Á þeim fundi var kynning á tölvuveri Kennaraháskólans. Rætt var um að tölvukunnátta kennara væri ágæt, en tölvur væru lítið notaðar í kennslu. Mest væri um að ræða að kennarar nýttu tölvur við undirbúning kennslunnar. Á fundinum var rætt um ssumarnámskeið sem félagið vildi standa fyrir . Komu fram hugmyndir um námskeið m.a. Fjölnir, tölvunet, forritun og rökfræði, TEX-umbrotsforrit, kynning á kennsluforritum og stýrikerfum.
Rætt var einnig á fundinum um mikilvægi þess að unglingar lærðu velritun áður en þeim væri kennt á tölvur. Samin var eftirfarandi ályktun og hún send til ráðamanna í skólakerfinu:
"Fundur 3f Félags tölvukennara skorar á nefnd til endurskoðunar á námskrá grunnskólans. Hún hlutist til að vélritun (rétt fingrasetning og blindskrift) verði skyldugrein í efstu bekkjum grunnskólans vegna aukinnar tölvunotkunar í þjóðfélaginu."

Aðalfundur 3f  árið 1989 var haldinn í Námsgagnastofnun 19. júní. Kosin var ný stjórn á fundinum. Eysteinn Jónasson var kosinn formaður og Atli Harðarson og Lára Stefánsdóttir meðstjórnendur. Davíð Þorsteinsson hélt áfram að vera ritari í félaginu. undir liðnum önnur mál var rætt um beiðni Tölvufræðslunnar um að fá netföng félagsmanna 3f.  Stjórn félagsins hafði hafnað erindinu og staðfesti fundurinn að það væri ekki hægt að leyfa fyrirtækjum að fá aðgang að netföngum félagsmanna.
Að venjubundnum aðalfundarstörfum var Magnús V Magnússon starfsmaður Fræsðlustofu með erindi. Hann fjallaði um samskiptaforrit og tölvusamskipti. Sagði hann frá verkefni sem væri í gangi´um allt land og jafnvel á milli landa. Sagði hann frá gagnabankanum Óðinn sem byrjað væri að vinna við.

Starfsárið 1989-1990 var lögð áhersla á að kynna félagið og ritaðir stjórnin m.a. greinar í rit sem dreift var til kennara. Þetta skólaár álytaði stjórn 3f:
"Félagið þarf að móta stefnu um tölvukennslu í framhaldsskólum. Meðal annars þarf að taka afstöðu til þess hvenær á námsferlinu nemendur ættu að taka fyrstu áfanga í tölvufræði. (ER 3. önn heppilgur tími?) Hvað á að kenna í fyrsta áfang o.s.frv. Félagið ætti að beita sér fyrir því að við þá framhaldsskóla sem kenna T_L 203. 213 og 313 verði TÖL 203 viðurkenndur sem valáfangi í raungreinum."
Haldinn var einn félagsfundur í janúar 1990. Á þeim fundi var fjallað um ályktunina hér á undan og félagsmenn lýstu yfir ánægju með vinnu stjórnar. Fjallað var um sumarnámskeið og kallað eftir hugmyndum félagsmanna um efni þeirra. Komu fram hugmyndir um; gagnabanka, póstkerfi, Works og Macintos og tölvu bókhald.
Rætt var einnig um að stjórn 3f þyrfti að beita sér fyri rþví að tölvukennarar fái sanngjörn laun fyri rumsjón með tölvustofum og tölvukosti skólanna.
Í maí 1990 kom stjórn félagsins saman og gerði lýsingu á námsáföngum fyrir ráðuneytið og fundað var með Karli Kristjánssyni deildarstjóra í framhaldsskóladeild menntamálaráðuneytisins.

Aðalfundur 3f var haldinn 16. júní 1990 og á þeim fundi var lagt til að á næsta starfsári væru lög félagsins endurskoðuð. Á fundinum var Lára Stefánsdóttir kosinn sem formaður, Atli Harðarson gjaldkeri, Kristinn Jónsson ritari. Undir liðnum önnur mál var rætt um launakjör félagsmanna og ákveðið að stjórnin ynni í þeim málum.

Starfsárið 1990-1991 var annasamt því náið samstarf var við ráðuneytið um mótun stefnu í kennsluháttum í framhaldsskólum. Í fyrsta sinn var gerður samningur við fagfélög og þ.m.t. við 3f.   Stofnaður var fyrsti rafræni póstlisti félagsins og var það gert í forritinu IMBU. Stjórn félagsins vann ötullega að því að fá störf við umsjón tölvukerfa og tölvustofa viðurkennt til launa. Haldið var sumarnámskeið á Kópaskeri í umsjón Péturs Þorsteinssonar þar sem kennt var á Lógó forritið.

Íslenska menntanetið á rætur sínar á Kópaskeri þar sem Pétur Þorsteinsson stofnaði tölvumiðstöð skóla, Imbu, árið 1988. Árið 1990 fóru aðrir grunnskólar í umdæminu að tengjast tölvunni á Kópaskeri. Notkunin fór sívaxandi og skólar utan svæðisins fóru að tengjast og ljóst varð að frumkvæði Péturs naut almenns stuðnings skólamanna í landinu. Árið 1992 var nauðsynlegt að stækka tölvumiðstöðina og voru settar tvær nýjar miðstöðvar, í Reykjavík og á Akureyri um leið var nafninu breytt í Íslenska menntanetið. Vorið 1993 hafa um 80% allra skólastofnana verið tengdar við menntanetið.
Fjölmargir aðilar studdu stofnun Íslenska menntanetsins. Þar skipti ákvörðun Kennaraháskólans um að nota tölvusamskipti í fjarskóla sínum, miklu máli. Verkefna- og námsefnissjóður Kennarasambands Íslands studdi framtakið einnig myndarlega og gerði starfsmönnum netsins kleift að ferðast í skóla landsins og veita tæknilega og faglega aðstoð. Reykjavíkurborg tók ákvörðun um að allir skólar borgarinnar fengju aðgang og Menntamálaráðuneytið ákvað að kanna möguleika netsins fyrir stofnunina.
Skólaárið 1992-93 hafa starfsmenn menntanetsins heimsótt yfir 70% grunnskóla. Hér má einnig nefna stuðning Fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra en þar fer fram öflug uppbygging gagnasafna og notkun tölvusamskipta í samstarfsverkefnum í umdæminu.

Á aðalfundi 3f var haldinn 15. júní 1991 hætti Atli Harðarson gjaldkeri  og í hans stað kom Halldór Leifsson. Gerðar voru breytingar á lögum félagins. Á aðlfundi var samþykkt að stjórnin fjalli um verkaskiptingu á milli vélritunar/ritvinnslukennara annarsvegar og tölvufræðikennara hisnvegar.

Starfsárið 1991-1992 stóð félagið fyrir ráðstefnu í ágúst 1991. Þar var aðalumfjöllunarefnið tölvunotkun. Undirbúin voru sumarnámskeið sem fjölluðu um kennslufræði og kennsluforritagerð. Félagið stóð einnig fyrir Word Perfect námskeiði um miðjan vetur. Áfram var barist fyrir launagreiðslum fyrir tölvuumsjón. Ráðuneytið sagði að skólameisturum væri heimilt að greiða fyrir þá vinnu, en fjármagn yrði ekki aukið vegna þessa. Umræða um dreifingu tölva í skólum í stað tölvuvera kom fram þett starfsár.

Aðalfundur 3f var haldinn 30. maí árið 1992 í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Kristinn Jónsson ritari félagsins hætti í stjórn og í hans stað kom Magnús Hallbjörnsson. Á þessum aðalfundi kom fram að árangur náðist á starfsárinu vegna greiðslna fyrir umsjón með tölvuverum í framhaldsskólum, en ekki í grunnskólum. Halldór Leifsson gjaldkeri sagði frá ferð sem hann fór í fyrir félagið til Umea í Svíþjóð. Þar komst hann að því að Svíar væru komnir skemur en íslendingar í tölvukennslu. Samt sem áður eru tölvuver þeirra mun betur búin en hér á Íslandi. Hann sagði jafnframt að tölvunotkun væri almennari meðal kennara í allri kennslu en hér á landi.