Joomla 1.5 sett upp á XAMPP

Joomla 1.5 sett upp á XAMPP

Posted by admin, Category: Joomla, Leiðbeiningar,

XAMPP hugbúnaðarvöndullinn er kjörinn þegar ætlunin er að setja upp þróunar- eða vinnuumhverfi á tölvu. Ég geri það gjarnan þegar ég hanna vef að vinna hann staðvært áður en ég færi á Netið. Einnig nota ég XAMPP iðulega til að setja upp hvers kyns netlægan hugbúnað sem ég hef áhuga á að kynna mér betur.

Fjöldi veflausna er hannaður fyrir hugbúnaðinn sem XAMMP hefur að geyma og flestar þeirra má setja upp á einfaldan hátt. Hér verður sýnt hvernig má setja upp Joomla vefumsjónarkerfið á Windows vél þar sem XAMPP er til staðar.

Fyrst er nýjasta útgáfa Joomla hugbúnaðarins sótt á joomla.org vefinn.

Hér er ætlunin að sækja fulla útgáfu en ekki uppfærslu og því er smellt á ZIP krækjuna fyrir aftan útgáfuheitið, sem þegar þetta er skrifað er 1.5.7.

Næst er að afþjappa zip skrána og vista innihaldið í möppu sem er aðgengileg Apache vefþjóninum. Ég mæli með Winrar forritinu til að þjappa og afþjappa skrár. Upplýsingar um þjöppunarforrit má finna hér. Windows XP og Vista notendur þurfa ekki að sækja sérstakan hugbúnað til að afþjappa .zip skrár en Winrar er engu að síður mun handhægari kostur en það sem er innbyggt í stýrikerfin.

Við uppsetningu býr XAMPP til htdocs möppuna undir sjálfri xampp möppunni (C:xampp/htdocs). Möppur og skrár sem vistaðar eru í htdocs möppuna eru aðgengilegar Apache vefþjóninum og því hægt að kalla fram á vefskoðara. Þegar Joomla er uppsett er einfaldast að afþjappa zip skránna sem sótt var á joomla.org í heilu lagi yfir í htdocs möppuna og gefa henni síðan viðeigandi heiti, t.d. joomla.

Þegar afþjöppun er lokið og búið að gefa möppunni sem geymir Joomla í htdocs möppunni nýtt heiti er opnaður vefskoðari og valin slóðin http://localhost/joomla. Gangi allt að óskum á vefskoðarinn að opna fyrstu síðuna í uppsetningarferli Joomla þar sem ákvarðað er hvaða tungumál skuli nota við uppsetninguna. Þar sem íslenska er ekki valkostur notast ég við sjálfgefið gildi og smelli því næst á [Next] hnappinn efst í hægra horni.

Næst athugar Joomla uppsetningarforritið hvort umhverfi það sem ætlunin er að setja forritið upp á sé ekki viðunandi. Til að mynda er athugað hvort stuðningur við php forritunarmálið og MySQL gagnagrunninn sé til staðar og nægjanlegur og hvort ýmsar kerfisstillingar henti ekki örugglega uppsetningunni. Það er mikilvægt að staldra augnablik við þessa skjámynd og staðfesta að allt sé eins og það á að vera. Sjálfgefin (e. default) uppsetning á XAMPP umhverfinu ætti að tryggja snurðulausa uppsetningu á Joomla.

Nú er smellt á Next hnappinn og birtist þá texti GNU General Public License, en Joomla er gefið út samkvæmt skilmálum þess höfundarleyfis. Áður en haldið er áfram með uppsetninguna verður að samþykkja skilmála leyfisins með því að smella á [Next] hnappinn.

Þá er komið að því að gefa upplýsingar um gagnagrunninn sem viðkomandi Joomla uppsetning á að nýta. Hér verður að skrá fimm atriði, en auk þess er hægt að skrá ítarstillingar sem ekki verður fengist við hér og nú. Stillingarnar fimm eru eftirfarandi:

  • Database Type / Tegund gagnagrunns
    Hér er valið mysql
  • Host Name / vefþjónn
    Hér er skráð localhost
  • Username / notandanafn
    Hér er skráð notandanafn notandans sem hefur aðgang að þeim gagnagrunni í MySQL sem Joomla nýtir, en þess má geta að MySQL getur innihaldið fjölmarga gagnagrunna. Einfaldast er að skrá root í þennan reit og veita þannig Joomla kerfisaðgang að MySQL grunninum. Það er einfaldast vegna þess að sá notandi er sjálfgefinn og því óþarfi að stofna nýjan notanda sérstaklega fyrir þetta hlutverk. Ég vil samt aðvara fólk stranglega við því að nota þessa aðferð við uppsetningar á vef á útværum (live) vefþjón þar sem hún leggur öryggi vefsins alls í hættu.
  • Password / lykilorð
    Sjálfgefin uppsetning á XAMPP inniheldur ekkert lykilorð á root notanda MySQL grunnsins. Þessi reitur er því skilinn auður. Þetta væri að sjálfsögðu óhugsandi á “live” vef.
  • Database name / nafn gagnagrunns
    Hér er skráð nafn gagnagrunnsins, t.d. joomla. Athugið að nota ekki séríslenska stafi eða orðabil.

Þegar upplýsingar um gagnagrunn hafa verið skráðar er smellt á [Next] hnappinn til að halda áfram.

Gangi allt að óskum mun Joomla uppsetningarforritið stofna gagnagrunn í MySQL og birta næsta skjá þar sem skráðar eru upplýsingar vegna skráarfærslna með FTP, en þær eru valkvæmar.

Þar sem takmörkuð þörf er á FTP skráarfærslum þegar Joomla er sett upp á staðværan vefþjón verður ekki fengist við þær stillingar hér og nú. Smellt er á [NEXT] til að halda áfram og skrá inn frekari upplýsingar um vefinn og gögnin sem hann kemur til með að geyma. Stillingarnar eru eftirfarandi:

  • Site nafn / Nafn vefsins
    Hér er skráð nafn vefsins og birtist það oftast á áberandi stað í sniðmátinu
  • Your E-mail / Tölvupóstur kerfisstjóra
    Tölvupóstur frá kerfinu er sendur á þetta netfang
  • Admin Password / Lykilorð
    Lykilorð kerfisstjóra. Eins og gefur að skilja er afar mikilvægt að gleyma ekki því sem hér er skráð.
  • Install Default Sample Data / setja upp sýnishorn af vef
    Unnt er að láta uppsetningarforritið skrá sýnishorn af gögnum í gagnagrunninn við uppsetningu með því að smella á þennan hnapp. Kosturinn við þá aðgerð er að notandinn fær gögn að vinna með og vef sem hægt er að prufukeyra. Ég mæli með þessum valkosti.

Load Migration Script valkosturinn hefur með það að gera þegar uppfært er úr Joomla 1.x yfir í 1.5. x útgáfuna af Joomla. Ekki verður fengist við slíka hluti hér og nú.

Uppsetningu er svo lokið með því að fjarlægja möppuna installation sem er undir joomla möppunni í þessu tilfelli eða þeirri möppu undir htdocs sem geymir joomla vefinn.

Eftir að installation mappan hefur verið fjarlægð er smellt á [Site] hnappinn efst í vinstra horni til að opna hinn nýja Joomla vef eða [Admin] hnappinn til að skrá sig inn á kerfishluta vefsins.

Til hamingju með nýja Joomla vefinn þinn.