Endurskoðun á aðalnámskrá

Posted by admin, Category: Atburðir 2012, Fréttir, Grunnskóli,

Aðalnámskrá námsgreina og námssviða í upplýsinga- og tæknimennt í grunnskóla
Frá því í haust hefur staðið yfir endurskoðun aðalnámskrár námsgreina (námssviða) á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Greinanámskrár eru nánari útfærsla á aðalnámskrá með ákvæðum um inntak og skipulag námsgreina og námssviða. Þar skal fjallað um menntagildi greinar og megintilgang, kennsluaðferðir, hæfniviðmið, námsmat og önnur atriði er varða sérstöðu hverrar greinar/sviðs.

3f, félag um upplýsingatækni og menntun var fengið til að tilnefna aðila í ritstjórn fyrir námsgreinina upplýsinga- og tæknimennt. Fulltrúi félagsins er Sólveig Friðriksdóttir frá 3f ásamt Siggerði Ólöfu Sigurðardóttur frá skólasafnskennurum. Áætlað er að þessu verki ljúki á vormánuðum.

Þann 30. janúar nk. verður haldinn opinn félagsfundur á vegum 3f þar sem kynnt verður staðan á verkefninu og kallað eftir ábendingum og hugmyndum frá félagsmönnum. Staðsetning fundarins og nánari tímasetning verður auglýst síðar.