3f stendur nú fyrir könnun á nytsamlegustu stafrænu verkfærunum í skólastarfi. Í því skyni að afla upplýsinga um hvaða stafrænu verkfæri nýtast best í íslensku skólastarfi óskum við eftir því að kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar, námsefnishöfundar og aðrir sem starfa í kennslugeiranum deili með okkur lista yfir þau 10 stafrænu verkfæri sem komið hafa þeim að hvað bestum notum í starfinu.
Stafrænt verkfæri í námi og kennslu getur verið allt það sem þú notar til að skapa eða miðla náms- og kennsluefni fyrir þig og/eða nemendur þína, s.s. hugbúnaður, vefskoðari, þjónusta á netinu, einstök vefsíða eða jafnvel vélbúnaður.
Til þess að taka þátt skráir þú lista yfir 10 stafræn verkfæri. Við óskum eftir því að þú skráir einstaka lausnir, s.s. WordPress í stað almennra hugtaka eins og „vefumsjónarkerfi“. Listinn þarf ekki að vera raðaður eftir mikilvægi, en útskýringar á valinu eru vel þegnar.
Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á vef 3f og skemmtikvöldi 3f í nóvember nk.