Uppsetning á XAMPP

Uppsetning á XAMPP

Posted by admin, Category: Leiðbeiningar, XAMPP,

Xampp er hugbúnaðarvöndull sem inniheldur safn af opnum hugbúnaði og má þar helst telja Apache vefþjóninn, MySQL gagnagrunninn ásamt PHP og Perl forritunarmálunum. Xampp er ákaflega einfalt í uppsetningu og notkun og er hreinlega kjörið til setja upp þróunarumhverfi t.a.m. fyrir Moodle eða Joomla lausnirnar.

Xampp er til í fjórum útgáfum, þ.e. fyrir Linux, Windows, Mac OS X og Solaris stýrikerfin. Xampp má að sjálfsögðu sækja og nota endurgjaldslaust.

Xampp safnið sótt og sett upp á Windows

Fyrsta skrefið er að sækja Xampp safnið á www.apachefriends.org vefinn. Smelltu á XAMPP krækjuna til að opna síðuna sem inniheldur útgáfurnar fjórar.

Hér er ætlunin að sækja og setja upp Windows útgáfuna og því er smell á XAMPP for Windows krækjuna.

Hér er smellt á XAMPP 1.6.8 krækjuna sem leiðir okkur að uppsetningarskrám fyrir þá útgáfu, sem er sú nýjasta eins og fram kemur á vefnum. Eins og gefur að skilja breytir þessi krækja um nafn í hvert skipti sem ný útgáfa kemur út.

Þar sem ætlunin er að fara einföldustu leiðina í uppsetningu er smellt á Installer krækjuna. Hún vísar á pakka sem hefur að geyma uppsetningarforrit. Pakkinn er vistaður á Sourceforge vefnum sem opnast um leið og smellt er á krækjuna.

Sjámyndin hér fyrir neðan getur verið nokkuð mismunandi eftir vefskoðara. Hér er XAMPP pakkinn sóttur með Firefox 3.x sem birtir glugga þar sem smellt er á Save File hnappinn til að vista skránna.

Þegar pakkinn hefur verið sóttur er næsta skref að setja hann upp. Það er gert með því að opna uppsetningarskránna xampp-win32-1.6.8.installer.exe.

Þegar spurt er um valkosti við uppsetningu (XAMPP Options) mæli ég með því að hakað sé við fjóra fyrstu valkostina, þ.e. að mynda flýtivísi á skjáborði og Start valseðli og setja Apache vefþjóninn og MySQL gagnagrunninn sem þjónustur í Windows. Sú leið þýðir að það er hægt að stoppa eða ræsa þennan hugbúnað á einfaldan hátt innan Windows stýrikerfisins. Filezilla hefur með skráarflutning að gera og í raun óþarfi þegar verið er að setja hugbúnað upp staðvært (e. localt) því einfaldast er að draga skrár á milli mappa til að afrita þær eða færa frá einum stað yfir á annan. Að sjálfsögðu er smellt á Install hnappinn til að halda uppsetningunni áfram.

Þegar afritun skráa er lokið birtir uppsetningarforritið skilaboð þess eðlis að uppsetningu sé lokið og reynir að ræsa fyrrgreindar þjónustur, þ.e. Apache og MySQL. Við þá aðgerð er vel hugsanlegt að eldveggir láti til sín taka og verður að heimila aðgang í gegnum þá sem oftast er gert með einum músasmelli. Að því loknu opnast XAMPP stjórnborðið og hugbúnaðurinn er tilbúinn til notkunar. Athugið að smella á Start hnappana fyrir aftan viðkomandi þjónustur t.d. Apache vefþjóninn ef ekki hefur tekist að ræsa þær við uppsetningu.

Hægt er að sannreyna uppsetninguna í vefskoðara með því að slá inn vefslóðina http://localhost. Á þá eftirfarandi skjámynd að birtast. Birtist hún ekki er eitthvað athugavert við uppsetninguna.

Loks er smellt á English krækjuna (í mínu tilfelli allavega) til að kalla fram vefsíðu þar sem hægt er skoða ýmsan hugbúnað sem fylgir uppsetningunni og sýsla með MySQL gagnagrunninn með phpMyAdmin verkfærinu.

Nú getur tölvan þjónað hlutverki vefþjóns og einnig er til staðar öflugur gagnagrunnur og forritunarmál. Á þennan grunn má byggja ýmsar lausnir s.s. margvíslegan opinn hugbúnað. Í næsta pistli verður sýnt skref fyrir skref hvernig setja má upp Joomla vefumsjónarkerfið með aðstoð XAMPP.