Heimsókn 3f í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ

Posted by admin, Category: Atburðir 2010, Fréttir,

Miðvikudaginn 24. febrúar sl.  stóð 3f fyrir heimsókn í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ (FMos) til að fá kynningu á starfseminni þar en skólinn tók til starfa sl. haust. Áhugasamir félagar mættu í Mosfellsbæinn á eigin bílum enda stutt fyrir flesta að fara. Skólinn er til húsa í gömlu húsi sem áður fyrr hýsti grunnskóla bæjarins, Brúarland.

Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Fmos, tók á móti félagsmönnum. Byrjað var á skoðunarferð um húsnæði skólans og gaman var að sjá hvernig arkitekt tókst að koma öllu haganlega fyrir og jafnfram halda í upphaflega form hússins. Guðbjörg kynnti síðan bæði hugmyndafræði og starfsemi skólans.

Nú eru um 90 nemendur í skólanum og lögð áhersla á metnaðarfullt, verkefnamiðað nám og kennsluaðferðir, sem miða að því að auðvelda nemendum að ná tökum á námsefninu, og stöðugt námsmat. Stuðst er við hugmyndir um leiðsagnarmat. Stundataflan er sveigjanleg, bæði fastir tímar og verkefnatímar þar sem nemendur stjórna því sjálfir hvort þeir nýta aðstoð kennara eða ekki.

Heimsóknin var afar ánægjuleg og fróðleg og það verður spennandi að fylgjast með framgangi skólans í framtíðinni.

Við þökkum kærlega fyrir okkur.