Svar við fyrirspurn 3f í maí 2009

Posted by admin, Category: Atburðir, Atburðir 2009,

Stjórn 3f hefur borist svar frá Sigurjóni Mýrdal, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, við bréfi 3f frá 25. mars sl., vegna athugasemda félagsins á skilgreiningu á lykilhæfniþáttum (key competences) í námskrárgerð samvkæmt nýjum lögum um framhaldsskóla.Bréfið er svohljóðandi:Sólveig

Eins og áður hefur komið fram í samskiptum okkar hefur bréf 3f, félags um upplýsingatækni og menntun, um upplýsingatækni, lykilhæfni og námskrárgerð borist ráðuneytinu.

Nú fer fram undirbúningur endurskoðunar aðalnámskrár fyrir öll skólastig í kjölfar lagasetningar á Alþingi s.l. sumar. Í þeirri vinnu er leitast við að þróa menntakerfið allt og byggja á heildarsýn um menntun og skólastarf og tryggja samfellu í námsframboði og starfsháttum á öllum skólastigum. Í þessari undirbúningsvinnu hefur verið horft til menntaumræðu víðsvegar og leitað fanga þar sem endurskoðun menntastefnu og námskráa fer fram.

Stefnt er að því í upphafi skólaárs haustið 2009 að drög liggi fyrir að almennum hlutum aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og megin áherslur menntastefnunnar. Þá fer væntanlega fram kynning og umræða um þau.

Reynt hefur verið að tryggja samráð um þessa vinnu við helstu hagsmunaaðlila, s.s. kennarasamtök og samtök sveitarfélaga. Liður í þessu undirbúningsstarfi var m.a. námskeið með lykilstarfmönnum framhaldsskólanna, en nýju lögin gera ráð fyrir mun róttækari breytingum í námskrám framhaldsskóla, en annarra skólastiga. Á námskeiðinu voru m.a. kynntar hugmyndir sem eru í þróun á vettvangi Evrópusambandsins um menntastefnu. Þaðan voru fengnar að láni hugmyndir um lykilhæfni sem þið gerið að aðalatriði í bréfi ykkar. Við höfum gert nokkrar æfingar með útfærslu lykilhæfni, eins og fram kemur í bréfi ykkar. Ekkert hefur verið ákveðið með endanlegar skilgreiningar lykilhæfniþátta, enda hangir það saman við heildarstefnumótun í menntamálum.

Ekki hefur verið ákveðið hvort í námskrárgerðinni lagt verður útaf hugmyndafræði sem byggir á lykilhæfni frekar en núgildandi námsmarkmiðum. Enn eru ýmis atriði óleyst í því sambandi. Við í ráðuneytinu erum meðvituð um mikilvægi þess að allir búi yfir hæfni í upplýsingatækni og notkun tölva í því sambandi og ég er sammála ykkur um að þátt upplýsingatækninnar þarf að efla og skýra í framsetningu lykilhæfniþáttanna.

Við fögnum áhuga ykkar á þessu atriði og væntum þess að eiga gott samstarf við félag ykkar um námskrárvinnuna sem framundan er. Æskilegt væri að fulltrúar félagsins kæmu til fundar við námskrárfólk ráðuneytisins síðar í mánuðinum til að skýra þessi atriði.

Virðingarfyllst,
Sigurjón Mýrdal

--------------------------------
Sigurjón Mýrdal deildarstjóri
Menntamálaráðuneyti