Ráðstefna 3f um fjarkennslu 2008

Posted by admin, Category: Atburðir, Atburðir 2008,

Árleg ráðstefna 3f var haldin föstudaginn 17. október 2008 í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Viðfangsefni ráðstefnunnar var fjarnám og fjarkennsla.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var virtur sérfræðingur á sviði fjarmenntunar, Terry Anderson.
Anderson er prófessor við háskólann í Athabasca í Kanada og stundar rannsóknir á fjarnámi og fjarkennslu. Hann er m.a. þekktur fyrir bók sína Theory and Practice of Online learning.

Auk Terry Anderson héldu erindi Sigurlaug Kristmundsdóttir kennari með áratuga reynslu af fjarkennslu og Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari sem hefur undanfarin ár komið á fót nýjum framhaldsskóla sem er um þessar mundir í miklum landvinningum á Vestfjörðum. Síðastu á dagskrá var Carl Svensson sem sagði frá því hvernig fjarkennsla fer fram hjá frændum okkar Svíum.

Með dyggri aðstoð Háskólans í Reykjavík, Verzlunarskólans og menntamálaráðuneytisins gat 3f boðið frítt á þessa ráðstefnu.

Að mati undirbúningsnefndar og þátttakenda á ráðstefnu 3f og HR föstudaginn 17. október sl. þótti ráðstefnan takast vel. Flutt voru mjög áhugaverð erindi og kann undirbúningsnefndin fyrirlesurum bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Verzlunarskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og menntamálaráðuneytið eiga einnig bestu þakkir skyldar fyrir myndarlegan stuðning við ráðstefnuna. Heildarfjöldi þátttakenda var hátt í níutíu. Fyrir hádegi ráðstefnudaginn voru haldnir tveir fundir þar sem fulltrúum háskóla og framhaldsskóla gafst tækifæri á að spjalla við fyrirlesara. Þema umræðnanna var; Hvað virkar í fjarkennslu? Fundirnir þóttu takast með miklum ágætum og var haft á orði að svona umræður þyrftu að eiga sér stað oftar.

Glærur frá ráðstefnunni , upptökur og fleira má finna á ráðstefnuvefnum.