Fræðslufundur 3f hjá Skólavefnum
, Category: Atburðir 2008, Framhaldsskóli, Fréttir, Grunnskóli, Háskóli, Leikskóli,Skólavefurinn bauð félagsmönnum 3f til kynningarfundar fimmtudaginn 6. mars 2008 í húsakynnum Skólavefsins. Þeir Jökull Sigurðsson og Páll Guðbrandsson fóru yfir það sem Skólavefurinn býður upp á.
Skólavefurinn var stofnaður í byrjun árs 2000. Vefurinn hefur vaxið jafnt og þétt frá þeim tíma og er nú stærsti náms- og fræðsluvefur landsins. Á vefnum er að finna vandað efni fyrir leik-, grunn-, framhalds- og háskóla og fróðleiksfúst fólk á öllum aldri. Nær allir skólar á landinu eru áskrifendur að vefnum, auk þúsunda einstaklinga. Á Skólavefnum vinna u.þ.b. 10 manns, en auk þeirra eru margir sem vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum.
Það kom fundarmönnum verulega á óvart hversu umfangsmikill vefurinn er. Daglega er sett inn mikið magn af kennsluefni sem áhugavert er fyrir alla kennara á hvaða skólastigi sem þeir kenna. Mikið af myndböndum til tungumálakennslu og hljóðskrám eru komnar inn á vefinn og er hægt að hlusta á mörg skáldverk og fróðleik um íslensk skáld. Það færist í vöxt að eldra fólk færi sér vefinn í nyt til þess t.d. að hlusta á Íslendingasögurnar.
Stjórn 3f þakkar þeim félögum Jökli og Páli kærlega fyrir góða og fræðandi kynningu.